Innlent

Þrír heiðraðir sem kyndilberar friðar

hlaupið búið Um 2.300 kílómetrar voru hlaupnir á 15 dögum í Friðarhlaupinu. Sjö þúsund sjálfboðaliðar hlupu með friðarkyndilinn, þar af fimm þúsund börn.
fréttablaðið/arnþór
hlaupið búið Um 2.300 kílómetrar voru hlaupnir á 15 dögum í Friðarhlaupinu. Sjö þúsund sjálfboðaliðar hlupu með friðarkyndilinn, þar af fimm þúsund börn. fréttablaðið/arnþór

Friðarhlaupinu lauk við Tjörnina í Reykjavík í gær eftir að hlaupinn var hringurinn í kringum landið. Stelpur úr 3. flokki í knattspyrnu í Val hlupu með friðarkyndilinn að Tjörninni og þar tók Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti borgarstjórnar, við kyndlinum.

Þremur einstaklingum, Steingrími Hermannssyni, Vigdísi Finnbogadóttur og Halldóri Blöndal, var veittur sá heiður að fá alþjóðlegu verðlaunamedalíuna „Kyndilberi friðar" við athöfnina, en sá fyrsti sem hlaut medalíuna var hlauparinn Carl Lewis.

„Þetta fengu þau fyrir óeigingjarnan stuðning við hlaupið í gegnum árin en öll höfðu þau góð tengsl við Sri Chinmoy, stofnanda hlaupsins," segir Torfi Leósson, skipuleggjandi Friðarhlaupsins á Íslandi.

Friðarhlaupið er alþjóðlegt kyndilboðhlaup og tilgangur þess er að efla frið, vináttu og skilning. Friðarhlaupið var fyrst hlaupið árið 1987 og hefur Ísland verið þátttakandi frá upphafi.

„Við hlupum í 15 daga og 2.300 kílómetrar voru lagðir að baki. Um sjö þúsund sjálfboðaliðar tóku þátt og þar af um fimm þúsund börn og unglingar. Þetta hefur gengið rosalega vel og við höfum mætt velvild alls staðar að," segir Torfi. - vsp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×