Innlent

Uppboðum Íbúðalánasjóðs hefur fjölgað verulega

Miklu fleiri heimili eru illa stödd fjárhagslega nú en fyrir nokkrum mánuðum. Uppboðum hjá Íbúðalánasjóði hefur fjölgað verulega.

Þetta kom fram hjá Svanhildi Guðmundsdóttur, sviðsstjóra hjá Íbúðalánasjóði, á borgarafundi sem fram fór á Akureyri á fimmtudagskvöld. Svanhildur var í hópi þeirra sem fluttu erindi um vaxandi vanda heimilanna og sagði aðspurð að uppboðum að kröfu Íbúðalánasjóðs hefði fjölgað umtalsvert að undanförnu. Reynt væri þó að sjá til þess að fólkið missti ekki þakið yfir höfuðið. Það væri ekki borið út þessa dagana.

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, vill að Íbúðalánasjóður eða ríkið yfirtaki öll húsnæðislán almennings og færi þau niður. Skiptar skoðanir voru á fundinum um hvort þetta sé raunhæf hugmynd og hvernig hún skuli framkvæmd. Ljóst er að verulegur hluti íbúðalána mun hvort eð er glatast, segir talsmaður neytenda.

Gísli telur að svokallaður forsendubrestur hafi orðið þegar gengi krónunnar hrundi og þess vegna sé ekki hægt að fara fram á að íbúar greiði lán sem hafi ef til vill hækkað um 50% eða meira.

Kári Arnór Kárason, hjá Lífeyrissjóðnum Stapa, varaði við því að hagsmunaaðilar skiptu sér í fylkingar þar sem einn talaði gegn öðrum heldur yrði að vinna sameiginlega að lausn hins gríðarlega vanda sem við blasir hjá mörgum húsnæðiseigendum.

Þá kom fram að óásættanlegt sé að harðar sé sótt að heimilum á íslandi en á hinum Norðurlöndunum.

Fasteignasali sagði að það ljós væri í myrkrinu nú að tækifæri væru til kaupa fyrir þá sem ættu ekkert reiðufé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×