Innlent

Þingnefndir ræði samruna á mjólkurmarkaði

Eygló Harðardóttir.
Eygló Harðardóttir.
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur óskað eftir sameiginlegum fundi viðskiptanefndar og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar vegna samruna Mjólku og Kaupfélags Skagfirðinga og athugasemda Samkeppniseftirlitsins vegna samrunans. Þar segir að minni samkeppni þýði hærra verð fyrir neytendur og lægri greiðslur til bænda. Eygló segir brýnt að þingnefndirnar fari yfir málið.

Mjólka, sem hefur verið sjálfstætt félag á mjólkurmarkaði, hefur glímt við rekstrarvanda. Félagið hefur nú runnið inn í Kaupfélag Skagfirðinga. Samkeppniseftirlitið getur ekki komið í veg fyrir samrunann, enda þótt hann teljist samkeppnishamlandi. Það skýrist af því að búvörulög ganga samkeppnislögum framar.

Eygló vill að á fundinn komi fulltrúar viðkomandi ráðuneyta, Bændasamtakanna, Samkeppniseftirlitsins og fulltrúa Mjólku og Kaupfélags Skagfirðinga.


Tengdar fréttir

Samkeppniseftirlitið segir einokun ríkja í mjólkuriðnaði

Samruni Kaupfélags Skagfirðinga (KS) og Mjólku er samkeppnishamlandi, en búvörulög koma í veg fyrir að Samkeppniseftirlitið geti gripið til aðgerða. Með samrunanum hefur myndast einokun í mjólkuriðnaði í skjóli búvörulaga.

Gylfi: Einokun á mjólkurmarkaði skelfileg

Viðskipta- og efnahagsráðherra segir skelfilegt að einokun ríki nú á mjólkurmarkaði. Búvörusamningur gengur framar samkeppnislögum og Samkeppniseftirlitið getur ekki komið í veg fyrir samruna Mjólku, sem hefur verið sjálfstæður framleiðandi, og Kaupfélags Skagfirðinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×