Innlent

Ekki til svo mikið sem minnisblað um ákvörðun Einars

Steingrímur J í þingsal
Steingrímur J í þingsal

Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra segir að ekki hafi verið til svo mikið sem eitt minnisblað í ráðuneytinu um ákvörðun forvera síns um að gefa út veiðiheimildir til næstu fimm ára á hrefnum og langreyðum. Hann gagnrýnir einnig fátæklegan lagagrunn sem liggur að baki ákvörðuninni og skilur ekki hversvegna forverar sínir hafi ekki endurskoðað lögin sem eru frá fimmta áratug síðustu aldar. Einar segir Steingrím flækja málin.

Steingrímur segist hafa beðið um þau gögn sem lágu til grundvallar ákvörðun Einars en í ráðuneytinu hafi ekki fundist svo mikið sem eitt minnisblað. Hann segir gögnin fátækleg sem liggja að baki ákvörðun Einars.

„Það er sjálfsagt að fara yfir stöðu þessara mála en menn þekkja bakgrunninn. Fráfarandi sjávarútvegsráðherra tók þessa stóru og umdeildu ákvörðun á síðustu klukkustundum sínum í ráðuneytinu. Við þær aðstæður sem þá komu upp og ég sem nýr ráðherra vildi fá tíma til þess að skoða þessi mál. Það fyrsta sem ég gerði var að skapa aðstæður til þess að fara yfir forsendur málsins," sagði Steingrímur á Alþingi fyrir stundu.

Hann sagðist síðan hafa sent hagsmunaaðilum aðvörun þess efnis að verið væri að skoða þessi mál. Það væru eðlilegir stjórnsýsluhættir eins og hann orðað það.

Hann segist síðan hafa kallað eftir gögnum frá öðrum ráðuneytum og býst við að fá þau í þessari viku. Eins ætlar hann að funda með hagsmunaaðilum en hann sagði mikla hagsmuni í húfi.

Einar Kristinn sagði ástæðu þessarar ákvörðunar sinnar í raun afar einfalda. Hún hafi verið sú að hér væri hægt að halda áfram hvalveiðum. Hann sagði ljóst að menn vissu að allar forsendur lægju fyrir þessari ákvörðun....„og tala um að tiltekin minnisblöð í þessu sambandi liggi ekki fyrir. Allar upplýsingar liggja fyrir í ráðuneytinu og hann veit það," sagði Einar og átti þar við Steingrím J.

Hann sagði málið einfalt og spurningin snérist um það hvort hérna ætti að halda áfram hvalveiðum sem samþykktar voru á alþingi árið 1999.

„Það er hlálegt að horfa framhjá þessari einfödlu spurningu þegar efnislegar forsendur eru til staðar um hvort það eigi að halda áfram þessum hvalveiðum eður ei," sagði Einar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×