Innlent

Ákærur eftir tvö til þrjú ár

Mynd/Daníel

Bankahrunið Eva Joly, ráðgjafi sérstaks saksóknara hér á landi, segir ómögulegt að geta sér til um hve langan tíma rannsóknirnar í tengslum við bankahrunið í haust muni taka. Það fari eftir því hve mikil aðstoð fáist frá öðrum löndum og hve ítarlegar rannsóknirnar verði.

„En ég tel nokkuð víst að við getum verið komin með nokkur mál tilbúin til dómsmeðferðar eftir tvö til þrjú ár. Ef ég miða við Elf-málið þá gætum við þurft allt upp í sjö ár."

Þetta segir hún í viðtali við þýsku útvarpsstöðina Deutsche Welle. Þar ítrekar hún að íslenska rannsóknin sé miklu viðameiri en Elf-málið franska, þar sem hún náði fyrir nokkrum árum fræknum sigri í starfi sínu sem rannsóknardómari við að koma stórtækum fjársvikurum undir lás og slá.

Í viðtalinu er hún einnig spurð hvað henni finnist um viðbrögð Evrópuríkja við fjármálahruninu á Íslandi.

„Ísland hefur fengið mjög harða meðferð," segir hún þar. „Ég tel þetta hafa verið evrópskt mál. Ísland er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og það var sameiginlegt bankakerfi okkar sem átti hlut að máli, sameiginlegt eftirlitskerfi. Ég tel að við hefðum getað leitað evrópskrar lausnar fyrir Ísland."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×