Innlent

Eiður Smári stefnir mögulega DV

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen gæti átt eftir að stefna DV. Mynd/ Vilhelm.
Eiður Smári Guðjohnsen gæti átt eftir að stefna DV. Mynd/ Vilhelm.
Eiður Smári Guðjohnsen knattspyrnumaður hefur sent útgefendum og ritstjórum DV og DV.is kvörtunarbréf vegna umfjöllunar um fjármál hans.

Heimir Örn Herbertsson, lögmaður Eiðs Smára, segir að Eiður hafi ekki tekið ákvörðun um mögulega málshöfðun gegn blaðinu. „Við getum orðað það þannig að það er búið að gera DV grein fyrir því að hann telji að þetta sé ólöglegt sem DV sé að gera. Hann hefur áskilið sér rétt til þess að gæta hagsmuna sinna á allan þann hátt sem lög leyfa," segir Heimir Örn í samtali við Vísi. Heimir hefur sent DV bréf, fyrir hönd Eiðs Smára, þar sem fréttaflutningnum er mótmælt.

DV greindi frá því fyrr í vikunni að Eiður Smári hafi tapað hundruðum milljóna á fjárfestingum. Glitnir hafi meðal annars fjármagnað viðskiptin. Heimir segir fráleitt að halda því fram að heimilt sé að birta allar upplýsingar um fjármál fólks, jafnvel þótt um sé að ræða þekkta knattspyrnumenn. Burtséð frá því hvort upplýsingarnar séu réttar eða rangar.

Jón Trausti Reynisson, annar ritstjóra DV, segir að blaðið hafni kröfu Eiðs. „Ef við myndum fara að hans kröfu, samkvæmt hans rökum gætum við ekki fjallað um mál sem eru mjög mikilsverð fyrir allan almenning á Íslandi og varða orsök og eðli efnahagshrunsins. Og við getum ekki látið Eið Smára hafa áhrif á það," segir Jón Trausti. Hann býst við því að blaðið muni halda áfram að fjalla um málefni Eiðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×