Lífið

Bíómyndin staðfest

Á hvíta tjaldið Fjölskyldan í Arrested Development mun rata á hvíta tjaldið því allir leikararnir hafa samþykkt að vera með. Jason Bateman verður því á sínum stað.
Á hvíta tjaldið Fjölskyldan í Arrested Development mun rata á hvíta tjaldið því allir leikararnir hafa samþykkt að vera með. Jason Bateman verður því á sínum stað.

Sá orðrómur hefur lengi verið á kreiki að til stæði að gera bíómynd eftir sjónvarpsþáttunum Arrested Development. Kvikmyndavefsíða Empire greinir frá því í gær að nú sé þetta endan­lega komið á hreint; kvikmyndin verði að veruleika.

Handritshöfundurinn og leikstjórinn Mitch Hurwitz er sestur niður og byrjaður að skrifa handritið en hann er hugmyndasmiðurinn á bak við þessa þætti sem hafa notið mikilla vinsælda um heim allan, þar á meðal á Íslandi.

Samkvæmt vefsíðu Empire hafði Hurwitz lýst því yfir að kvikmyndin kæmi ekki til greina nema allur leikhópurinn samþykkti að taka þátt.

Hann samanstendur af Jason Bateman, Will Arnett, Portiu De Rossi, Michael Cera, Jessicu Walter, Jeffrey Tambor, Tony Hale, Aliu Shawkat og David Cross. Upphaflega var talið, þótt það hefði ekki fengist staðfest, að fyrirætlanirnar myndu stranda á Michael Cera enda hefur hann náð töluverðum árangri á hvíta tjaldinu eftir að þættirnir voru sýndir. Hann virðist þó hafa tíma til að leika í myndinni og aðdáendur þáttanna geta því varpað öndinni léttar.

Þótt Arrested Development hafi náð töluverðri hylli meðal gagnrýnenda var ákveðið að slá þáttaröðina af eftir aðeins þrjár seríur þrátt fyrir að hún væri margverðlaunuð. Áhorfið reyndist ekki vera sem skyldi.

Blaðamaður Empire skrifar að vonandi muni framleiðslufyrirtækið Fox Searchlight koma betur fram við þessa skrítnu fjölskyldu en sjónvarpsfyrirtækið. Talið er að Ron Howard muni tala inn á myndina sem þulur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.