Lífið

Týndi nærbuxunum sínum á barnum

 Jóhannes Haukur varð fyrir því óláni að týna lukkunærbrókunum. Hann segir það lán í óláni því nú geti hann staðið á eigin fótum.  Fréttablaðið/GVA
Jóhannes Haukur varð fyrir því óláni að týna lukkunærbrókunum. Hann segir það lán í óláni því nú geti hann staðið á eigin fótum. Fréttablaðið/GVA

„Hvernig útskýrir maður fyrir konunni sinni að maður hafi týnt nærbuxunum á barnum? Maður segir bara satt og rétt frá,“ segir Jóhannes Haukur Jóhannesson, leikari og Hellisbúi með meiru. Eins og Fréttablaðið greindi frá fyrir nokkru á Jóhannes sínar lukkunærbuxur sem hann leikur alltaf í.

En kvöld eitt ákvað hann að skella sér aðeins út á lífið með félögum sínum og hafði lukkubrækurnar með sér í plastpoka. Svo óheppilega vildi til að Jóhannes gleymdi pokanum með heillagripnum í og hann reiknar fastlega með því að enginn hafi verið svo góður í sér að geyma brækurnar eða passa þær þar til hann vitjaði þeirra aftur. Þær séu því týndar og tröllum gefnar.

Jóhannes kveðst líta á það sem lán í óláni að undirfötin séu horfin, því nú gefist honum kærkomið tækifæri til að standa eigin fótum á sviði, reyndar nærbuxnalaus. „Ég er ekki búinn að gera það upp við mig hvort ég verði í nærbuxum eða ekki, það kemur bara í ljós. Eða ekki,“ segir Jóhannes en Hellisbúinn fer á smá ferðalag um miðjan mánuðinn og verður meðal annars sýndur á Akureyri hinn 16. október.

Annars er í nægu að snúast hjá leikaranum og hann hefur varla haft tíma til að syrgja lukkubrækurnar. „Nei, við erum að fara að taka upp sjónvarpsþáttinn Hjá Marteini í næstu viku og svo er ég að bíða eftir því að Gunnar Björn, leikstjóri Skaupsins, hringi í mig,“ segir Jóhannes, meira í gríni en alvöru, jafnvel þótt hann hafi farið á kostum í síðasta skaupi sem Geir H. Haarde.

„Ég er reyndar búinn að vera að stúdera annan náunga, Sigmund Davíð. Það hlýtur bara að vera tímaspursmál hvenær sveitungi minn úr Hafnarfirðinum, Gunni, tekur upp símann og heyrir í mér.“- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.