Innlent

Bretar sagðir skálda fréttir

Hann segir ekki víst að misræmið sé óeðlilegt þótt upphæð skuldabréfsins sé há.
Hann segir ekki víst að misræmið sé óeðlilegt þótt upphæð skuldabréfsins sé há.
„Þótt upphæð skuldabréfsins sé vissulega há þá er ekki víst að misræmið sé óeðlilegt. Krafan getur legið undir öðrum liðum í bókhaldi bankans. Við höfum því fengið endurskoðendafyrirtækið Deloitte til að rannsaka málið," segir Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis.

Á fundi kröfuhafa í síðustu viku kom upp að skuldabréfakrafa upp á um 140 milljarða króna, sem skilað var í búið, hefði ekki verið bókfærð. Glitnir gaf skuldabréfaflokkinn út á fyrri hluta síðasta árs. Hvorki er vitað hvað varð um skuldabréfaflokkinn né hver eigi hann í dag. Skuldir Glitnis nema 2.500 milljörðum króna og jafngildir krafan því að fimm prósent bætist við núverandi upphæð.

Breska dagblaðið Telegraph sagði í gær kröfuna hafa komið frá Royal Bank of Scotland og þefi rannsóknarfyrirtækið Kroll uppi slóð skuldabréfanna.

Árni segir þetta alrangt og jaðra við skáldskap. Krafan hafi komið inn á borð skilanefndar frá erlendum aðila sem haldi utan um rafræna skráningu skuldabréfa. Krafan hafi ekki passað við skuldalista Glitnis og því ákveðið að kanna málið. Nokkrar ástæður kunni að vera fyrir misræminu. Þar sem skuldabréfaflokkurinn hafi ekki selst kunni upphæðin að liggja undir öðrum lið í bókhaldi Glitnis. Málið er í skoðun og niðurstöðu að vænta fyrir vikulokin, að sögn Árna. - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×