Innlent

Umsögn AGS verði birt opinberlega

Forsætisráðuneytið hefur þegar óskað eftir því við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að sem fyrst verði send formleg umsögn um Seðlabankafrumvarpið svokallaða sem ekki sé bundin trúnaði, og verði birt opinberlega þegar hún berst og kynnt viðskiptanefnd Alþingis sem hefur frumvarp til laga um breytingar á lögum um bankans nú til umfjöllunar.

Yfirlýsing Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra:

„Í tilefni af umræðum á Alþingi í dag þar sem spurst var fyrir um það hvort forsætisráðuneytinu hefði borist umsögn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands vill taka eftirfarandi fram:

Eftir að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands hafði verið dreift á Alþingi í sl. viku og það þýtt á ensku sendu embættismenn forsætisráðuneytisins enska þýðingu frumvarpsins til upplýsingar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Var það gert í samræmi við vinnubrögð og alþjóðlegar hefðir í samskiptum stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar unnið er á grundvelli sameiginlegrar efnahagsáætlunar.

Í framhaldi af því fékk ráðuneytið nokkrar tæknilegar ábendingar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem sendar voru í trúnaði og bárust ráðuneytinu í tölvupósti um sl. helgi. Ráðherra fékk þær í hendur eftir umræður á Alþingi í dag.

Í ljósi umfjöllunar um ábendingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Alþingi í dag hefur forsætisráðuneytið átt í viðræðum við fulltrúa sjóðsins um hvort aflétta megi þeim trúnaði sem áskilinn var af hans hálfu. Í framhaldi af því sendi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn frá sér svohljóðandi yfirlýsingu nú síðdegis:

"The IMF did not send a letter to the Government in connection to proposed changes to the governance of the Central Bank of Iceland (CBI). At the request of the authorities, the IMF last week provided a brief and preliminary technical assessment of the proposed changes to the CBI Act, based on international best practices. Given its multilateral expertise, the IMF is frequently approached by member countries to advise on central bank legislation."

Forsætisráðuneytið hefur þegar óskað eftir því við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að sem fyrst verði send formleg umsögn, sem ekki sé bundin trúnaði, og verði birt opinberlega þegar hún berst og kynnt viðskiptanefnd Alþingis sem hefur frumvarp til laga um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands nú til umfjöllunar."




Tengdar fréttir

AGS sendi ríkisstjórninni ábendingar varðandi Seðlabankafrumvarp

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sendi ríkisstjórninni um helgina óumbeðið ábendingar varðandi frumvarp hennar um Seðlabanka íslands. Forsætisráðherra vissi ekki af ábendingunum fyrr en eftir umræður á Alþingi í dag. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn óskar eftir trúnaði um innihald ábendinganna, en forsætisráðherra hefur óskað eftir því að þeim trúnaði verði aflétt. Ábendingarnar eru sagðar vera tæknilegs eðlis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×