Erlent

Kameldýr hertaka bæ í Ástralíu

Óli Tynes skrifar
Ef kameldýrin finna lykt af vatni reyna þau að komast inn.
Ef kameldýrin finna lykt af vatni reyna þau að komast inn.
Um sexþúsund villt kameldýr hafa nánast lagt undir sig smábæinn bæinn Docker River í Ástralíu. Íbúarnir eru ekki nema um 330 talsins og mega sín lítils í bardögum um yfirráð yfir bænum.

Ástæðan fyrir innrásinni er sú að miklir þurrkar hafa þurrkað upp vatnsból á þessum slóðum og dýrin eru því í örvæntingafullri leit að vatni.

Þau trampa um vatnsból bæjarins og reyna að komast inn í hús þar sem þau finna lykt af vatni.

Margir íbúanna þora ekki út fyrir dyr því dýrin eru stór og þau eru viðskotaill þegar svona stendur á. Þau hafa lent í innbyrðis bardögum ef einhver vatnslögg hefur fundist og hræ liggja nú víðsvegar í og við bæinn.

Yfirvöld segja að ekki sé um annað að ræða en fella dýrin. Þau hafa sent veiðimenn sem eiga að reka þau út út bænum og skjóta þau.

Það voru hvítir innflytjendur sem komu með kameldýrin með sér til Ástralíu. Þau voru notuð til þess að kanna eyðimerkur álfunnar.

Löngu er hætt að nota þau, en þau hafa haldið áfram að fjölga sér. Talið er að um ein milljón kameldýra reiki um eyðimerkurnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×