Innlent

Vara við SMS-lánum á Íslandi

Kredia, sem skilgreinir sig sem fyrirtæki á sviði smálána, sms-lána og örlána, hefur nýlega byrjað að bjóða upp á svokölluð smálán. Framkvæmdin virðist einföld, allt sem þarf er að skrá sig á netinu og senda svo sms þegar mann vantar pening. Neytendasamtökin vara fólk eindregið við töku þessara lána og hvetja yfirvöld jafnframt til aðgerað er sporni við slíkum lánveitingum. Lánin geta verið að upphæð 10.000, 20.000, 30.000 eða 40.000 kr. og þau þarf að greiða upp innan fimmtán daga.

Þetta kemur fram á vef Neytendasamtakanna. Þá segir að ef lánaskilmálarnir séu skoðaðir betur komi í ljós að þeir eru ekki í samræmi við lög um neytendalán. Hins vegar er það því miður svo að lán sem eru einungis veitt í fimmtán daga falla ekki undir lög um neytendalán.

„Ef lánskjörin eru svo skoðuð nánar kemur í ljós að 10.000 kr. lán í 15 daga kostar 2.500 kr., 20.000 kr. lán kostar 4.750 kr., 30.000 kr. lán kostar 7.000 kr. og 40.000 kr. lán sem veitt er í allt að fimmtán daga kostar 9.250 kr. Inni í þessum kostnaðartölum er, skv. upplýsingum af heimasíðu Kredia, kostnaður við lántökuna sjálfa auk vaxta en ekki er nánar sundurgreint hvað er hvað. Kostnaðurinn við minnsta lánið er því 25% sem svarar til 600% kostnaðar á ársgrundvelli."

Þá segir að lán sem þessi hafi verið harðlega gagnrýnd í nágrannalöndum okkar, enda beinist markaðssetningin aðallega að yngri neytendum og þeim sem hafa lítið handa á milli.

„Þá er ekki hægt að kalla lánskjörin neitt annað en okur. Jafnframt er örðugt að sjá hvernig það leysir einhvern fjárhagsvanda að fá lán sem skal svo greiða tilbaka með allt að 25% álagi innan 15 daga. Neytendasamtökin vilja því vara fólk eindregið við töku þessara lána og hvetja yfirvöld jafnframt til aðgerða er sporni við slíkum lánveitingum. "Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.