Innlent

Grunaður um að hafa skotið fimmtíu milljónum undan skatti

Helga Anardóttir. skrifar
Hannes Smárason.
Hannes Smárason.

Hannes Smárason er grunaður um að hafa skotið fimmtíu milljónum undan árin 2006 og 2007, með því að láta fyrirtæki í hans eigu greiða fyrir persónuleg útgjöld, hvort heldur var ferðir með einkaþotum eða bíómiða. Einnig leikur grunur á að félag í eigu Hannesar hafi selt tvö hús við Fjölnisveg á undirverði til eiginkonunnar og hans sjálfs.

Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra gerði húsleit í eignum Hannesar Smárasonar að Fjölnisvegi 9 og 11 þann 3. júní síðastliðinn. Hannes kærði húsleitina til Héraðsdóms sem úrskurðaði í dag að hún hafði verið lögmæt.

Rannsókn efnahagsbrotadeildar beinist að meintum auðgunar og skattalagabrotum vegna viðskipta FL group tengdum flugfélaginu Sterling og meintu broti gegn hlutafélagalögum.

Þá hefur efnahagsbrotadeild einnig til rannsóknar meint skattalagabrot sem voru kærð til embættisins þann 11 maí síðastliðinn og var Hannes Smárason yfirheyrður af skattrannsóknarstjóra þann 13. maí síðastliðinn. Kæruna má rekja til rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins á FL Group.

Við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á FL GROUP hf. vegna rekstrarársins 2006 kom í ljós að kostnaður hefur verið færður á viðskiptamannareikning Hannesar hjá FL Group sem virðist vera einkakostnaður hans, kostnaður sem ekki var gefinn upp til skatts heldur greiddur af félagi í hans eigu.

Samkvæmt bókhaldi félagsins eru færslurnar til að mynda merktar sem einkaferðir Unnar Sigurðardóttur konu Hannesar Smárasonar til Bandaríkjanna, veiðileiðsögn og bíómiðar Hannesar upp á rúmlega sautján milljónir króna. Þá er einnig til rannsóknar reikningur upp á tæplega 33 milljónir vegna flugferða Hannesar. Sá reikningur var greiddur af FI fjárfestingum jafnvel þótt allt bendi til þess að Hannes hafi notað flugvélina á eigin vegum.

Þá leikur einnig grunur á vafasömum fasteignaviðskipti með Fjölnisveg 9 og ellefu þar sem þær voru seldar á undirverði frá Fjölnisvegi 9 ehf. til Hannesar og Unnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×