Innlent

Ingibjörg ráðlagði Sigurbjörgu fyrir borgarafundinn

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, ráðlagði Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, stjórnsýslufræðingi, sem hélt framsögu á borgarafundinum í Háskólabíói í gær að nálgast ræðu sína á fundinum af varfærni og gæta þess að ganga ekki á faglegan heiður sinn.

Sigurbjörg sagði í ræðu sinni að ónefndur ráðherra hefði hringt í sig fyrir fundinn og hvatt sig til þess að gæta orða sinna á fundinum vegna starfsheiðurs síns og framamöguleika. Margir á fundinum tóku því sem svo að um Guðlaug Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, væri að ræða en Sigurbjörg var ráðgjafi í heilbrigðisráðuneytinu á síðasta ári. Hún var einnig meðal umsækjenda um starf forstjóra Sjúkratryggingastofnunar.

Í tilefni af ummælum Sigurbjargar á fundinum hefur Ingibjörg sent frá sér yfirlýsingu sem fylgir hér að neðan.

Yfirlýsing Ingibjargar:

,,Góð vinátta hefur verið á milli okkar Sigurbjargar um árabil þar sem við höfum metið mál og skipst á heilræðum eins og vinir gera. Í krafti þeirrar vináttu vildi ég ráða henni heilt og kom þeim skilaboðum til hennar héðan frá Stokkhólmi að nálgast ræðu sína á Háskólabíósfundinum af varfærni og gæta þess að ganga ekki á faglegan heiður sinn.

Ég er sannfærð um að Sigurbjörg veit að þetta voru ráð af góðum huga gefin og mér þykir leitt að lagt hafi verið út af þeim eins og um ógnandi tilmæli frá ráðherra væri að ræða.

Stokkhólmi 13. janúar 2009

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir"








Tengdar fréttir

Segist ekki hafa hótað ræðumanni á borgarafundi

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur, sem hélt framsögu á borgarafundinum í Háskólabíói í gær, sagði í ræðu sinni að ónefndur ráðherra hefði hringt í sig fyrir fundinn og hvatt sig til þess að gæta orða sinna á fundinum vegna starfsheiðurs síns og framamöguleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×