Innlent

Stefnt að undirritun samnings

Fundað var í Stjórnarráðinu fram eftir kvöldi í gær um stöðugleikasáttmála. Allt kapp var lagt á að undirrita samninginn í gær og stóð fundur enn yfir þegar Fréttablaðið fór í prentun.

Samkvæmt heimildum blaðsins er samningurinn mjög víðfeðmur og tekur á flestum þeim málum sem hvað hæst hafa farið undanfarið; ríkisfjármálum, bönkum og gjaldeyrishöftum, svo eitthvað sé nefnt. Þá er gert ráð fyrir að engar ákvarðanir verði teknar í ríkisfjármálum án aðildar samningsaðila.

Fulltrúar vinnumarkaðarins hittu ríkisstjórnina í hádeginu í gær og gengu síðan á fund í Karphúsinu.

Ætlunin var að hitta ráðherrana aftur síðdegis en það tafðist, bæði vegna umræðu á Alþingi og þátta sem þurfti að vinna frekar í samningnum. Á meðan sátu fulltrúar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Alþýðusambandsins, Bandalags háskólamanna, kennarar, bankamenn og fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, ásamt fulltrúum ríkisvalds og sveitarfélaga.

Sú nefnd hittist klukkan 20 og gekk frá tillögunni sem lögð var fyrir ráðherrana klukkan rúmlega 21 í gærkvöldi.

- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×