Innlent

Persónukjör lagt fyrir Alþingi

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Stærðfræðingurinn Þorkell Helgason hafði umsjón með gerð frumvarpanna.
Stærðfræðingurinn Þorkell Helgason hafði umsjón með gerð frumvarpanna. Mynd/Vilhelm
Frumvarp ríkisstjórnarinnar til laga um persónukjör í bæði Alþingis- og sveitarstjórnarkosningum hefur nú verið lagt fyrir Alþingi til afgreiðslu.

Persónukjörskerfið sem lagt er til byggir á írskri fyrirmynd og felur í sér svipað kerfi og notað er við prófkjör.

Lagt er til að framboðslistinn verði tvískiptur. Á efstu sætum listans eru nöfn þeirra sem boðnir eru fram til persónukjörs og skal fjöldi þeirra vera jafn fjölda kjörinna fulltrúa í kjördæminu, en sá hluti listans er óraðaður. Neðstu sæti listans skipa frambjóðendur sem boðnir eru fram með hefðbundnum röðuðum hætti, meðal annars til að einfalda val kjósenda og halda í hefðir um heiðurssæti.

Val kjósandans byggir síðan á sama fyrirkomulagi og tíðkast í prófkjörum, þar sem hann gefur hverjum frambjóðanda í hin óröðuðu sæti tölu eftir geðþótta.

Undirstrika ber að með þeim breytingum sem lagðar eru til, er hvorki hróflað við listakosningu né hlutfallskosningakerfinu hér á landi. Kjósendur munu eftir sem áður kjósa tiltekinn lista og hefur persónukjörið einungis áhrif á það hvaða frambjóðendur hreppa þau sæti sem listinn fær í viðkomandi kjördæmi eða sveitarstjórn samkvæmt niðurstöðu kosninganna.

Þorkell Helgason stærðfræðingur hefur haft umsjón með gerð frumvarpanna en jafnframt var settur á fót samráðshópur hagsmunaaðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×