Innlent

Ekki eytt vegna peningaskorts

Refagreni er í nágrenni sumarbústaðalóða. Einn nágranni þeirra hefur ekkert við þá að athuga og segir þá mjög spaka. Myndin er tekin í Húsdýragarðinum.
fréttablaðið/gva
Refagreni er í nágrenni sumarbústaðalóða. Einn nágranni þeirra hefur ekkert við þá að athuga og segir þá mjög spaka. Myndin er tekin í Húsdýragarðinum. fréttablaðið/gva

Sumarbústaðaeigendur sem eiga lóðir rétt við golfvöllinn í Borgarbyggð eru margir hverjir ósáttir við refagreni í nágrenninu. Refirnir, sem eru um sjö talsins, éti rusl þeirra og mat og fuglalíf sé af skornum skammti vegna þeirra. Kvartað var til bæjar­yfirvalda í Borgarbyggð, sem ekkert gerðu í málinu vegna peningaskorts.

„Það var sett ákveðið fjármagn í eyðingu á ref á þessu ári og sú fjárveiting er svo gott sem búin,“ segir Eiríkur Ólafsson, skrifstofustjóri Borgarbyggðar. Segir hann hins vegar að reynt sé að leysa þessi mál þegar þau komi upp.

„Ekkert bannar viðkomandi sumarbústaðaeigendum að kalla þá til sem veiða refi en þá verða þeir líklega að borga þann kostnað sjálfir. Borgarbyggð er búin að eyða þó nokkrum peningum í að eyða refagrenum í sumar en ég viðurkenni fúslega að líklega var ekki nægur peningur í áætluninni,“ segir Eiríkur.

Axel Sigurðsson, eigandi sumar­bústaðalóðar við grenið og sá sem upphaflega fann það, segir refina ágætis nágranna.

„Þetta eru yrðlingar sem eru að vaxa og við gefum þeim mat sem verður aflögu hjá okkur,“ segir Axel, sem ekkert hefur við þessa rándýrsnágranna sína að athuga og segir þá mjög spaka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×