Innlent

Bíllyklarnir reyndust öruggir á heimilinu

VÍS.
VÍS.

Tryggingafélagið VÍS var skikkað af Héraðsdómi Norðurlands eystra til þess að greiða vátryggjanda 3,4 milljón krónur vegna skemmda sem voru unnar á jeppabifreið hans.

Forsaga málsins er sú að lögreglan fékk tilkynningu um ölvaðan ökumann á Hálsum milli Raufarhafnar og Þórshafnar á leið til Þórshafnar. Maðurinn endaði á því að aka út af við Leirtjarnarháls og festi bílinn í gljúpum jarðvegi þar sem hann skildi hana eftir.

Maðurinn var síðar handtekinn en hann hafði verið ofurölvaður. Hann mundi varla eftir ökuferðinni sjálfri. Í yfirheyrslum sagðist hann hafa gengið á bíla og að lokum fundið þennan bíl ólæstan með lyklana í kveikjulásnum.

Eigandi bílsins var með kaskótryggingu og óskaði eftir því að fá tjónið bætt í kjölfarið. Því hafnaði Vís á þeim forsendum að ökutæki eigi að vera læst og lyklar geymdir á öruggum stað. Það er varúðarregla, svokölluð húftrygging, í samningi.

Eigandi bílsins sætti sig ekki við það og vildi meina að það væri ekki hægt að skilja lyklana eftir í bílnum þar sem hann ýlfraði ef svo væri, eins og það var orðað í dómsorði.

Hann mundi vel eftir því að lyklarnir hefðu verið geymdir í skál á borði í húsi hans og eiginkonunnar. Aftur á móti var húsið ólæst.

VÍS hafnaði að borga skaðabæturnar í ljósi þess að húsið var ólæst og þar með voru lyklarnir ekki nægilega tryggir á eldhúsborðinu.

Þessu hafnaði héraðsdómur og komst að þeirri niðurstöðu að lyklarnir voru sannarlega öruggir á heimilinu og að vátryggingafélagið skyldi borga eigandanum 3,4 milljónir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×