Innlent

Mikið um hraðakstur um helgina

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Lögreglan hafði í nógu að snúast um helgina.
Lögreglan hafði í nógu að snúast um helgina.
Nokkuð bar á hraðakstri á höfuðborgarsvæðinu um helgina en lögreglan stöðvaði för allmargra ökumanna fyrir þær sakir. Ökufantarnir voru teknir víðsvegar í umdæminu en grófasta brotið var framið á Hringbraut í Reykjavík en þar ók hálfþrítugur karl bifhjóli á 130 km hraða.

Á sömu götu mældist bíll á liðlega 100 km hraða en undir stýri var kona á þrítugsaldri. Piltur um tvítugt var tekinn á Bústaðavegi en hann ók bíl sínum einnig á 100 km hraða. Þá voru tveir bifhjólamenn staðnir að hraðakstri á Reykjanesbraut, sunnan Hafnarfjarðar, en hjól þeirra mældust á tæplega 150 km hraða. Annar mannanna er rúmlega tvítugur en hinn þrítugur.

För 19 ára pilts var stöðvuð í Grafarvogi en bíll hans mældist á 118 km hraða á Gullinbrú og svo mætti lengi áfram telja. Eins og fram hefur komið var lögreglan víða við eftirlit en ökufantar voru einnig stöðvaðir á Hafnarfjarðarvegi, Miklubraut, Vesturlandsvegi, Suðurlandsvegi og Þingvallavegi, svo fleiri dæmi séu tekin.



Þrír óku undir áhrifum fíkniefna


Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði för þriggja ökumanna í umdæminu um helgina en hinir sömu voru allir undir áhrifum fíkniefna. Þetta voru tveir karlar, annar á þrítugsaldri en hinn tæplega fertugur, og 17 ára stúlka. Þau voru öll tekin á Vesturlandsvegi í gær en þess má geta að annar mannanna, sá yngri, var nýlega sviptur ökuleyfi.

Átta teknir fyrir ölvunarakstur

Átta ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Sex voru stöðvaðir á laugardag og tveir á sunnudag. Fjórir voru teknir í Reykjavík, tveir í Kópavogi og einn í Garðabæ og á Kjalarnesi. Þetta voru fimm karlar á aldrinum 19-46 ára og þrjár konur en þær eru allar um tvítugt. Einn þessara ökumanna hafði þegar verið sviptur ökuleyfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×