Erlent

Stóra samsteypan gæti lifað

Kosningaspjöldin skreyta borgir Þýskalands Þau Angela Merkel, leiðtogi Kristilegra demókrata, og Frank Walter Steinmeier, kanslarefni Sósíaldemókrata, blasa við íbúum.
Nordicphotos/AFP
Kosningaspjöldin skreyta borgir Þýskalands Þau Angela Merkel, leiðtogi Kristilegra demókrata, og Frank Walter Steinmeier, kanslarefni Sósíaldemókrata, blasa við íbúum. Nordicphotos/AFP

Angela Merkel Þýskalandskanslari á sér þá ósk heitasta að losna úr stjórnarsamstarfi við Sósíaldemókrata og mynda samsteypustjórn með Frjálsum demókrötum. Hvort henni verður að ósk sinni ræðst á morgun, þegar Þjóðverjar kjósa sér nýtt þing.

Merkel er leiðtogi Kristilegra demókrata, stóra íhaldsflokksins sem undanfarið kjörtímabil hefur verið í svonefndri „stórri samsteypustjórn“ með hinum stóra flokknum í þýskum stjórnmálum, Sósíaldemókrötum. Önnur stjórnarmynstur voru vart í boði eftir síðustu kosningar 2005.

Kristilegir demókratar og Sósíaldemókratar hafa áratugum saman verið höfuðandstæðingar og skipst á um ríkisstjórnarmyndun, oftast með Frjálsum demókrötum, miðjuflokki sem undanfarið hefur hallað sér meira til hægri en vinstri.

Ný skoðanakönnunin bendir til að Kristilegir og Frjálsir fái samtals 47 prósent atkvæða, sem dugar ekki til að að mynda ríkisstjórn.

Kristilegum demókrötum er spáð 33 prósentum, Frjálsum demókrötum 14 prósentum og Sósíaldemókrötum 25 prósentum. Niðurstaðan gæti því orðið sú að „stóra samsteypan“ verði eina mögulega stjórnarmynstrið eftir kosningar.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×