Innlent

Búast má við þingi á milli jóla og nýárs

Mynd/Anton Brink

Ólíklegt er talið að Alþingi takist að ljúka meðferð allra mála sem ríkisstjórnin telur mikilvægt að verði að lögum fyrir áramót áður en jólahátíðin gengur í garð. Því er útlit fyrir að þingfundir verði milli jóla og nýárs.

Starfsáætlun þingsins er farin úr skorðum en samkvæmt henni átti önnur umræða fjárlaga að vera í dag, þriðja umræða á þriðjudag og síðasti þingfundur fyrir jólaleyfi eftir viku. Fjárlagafrumvarpið er enn til meðferðar í fjárlaganefnd en vonir standa til að önnur umræða geti farið fram á mánudag. Óvíst er hvenær þriðja umræðan getur farið fram.

Stjórnarandstaðan hefur sett fram kröfur í sextán liðum um verklag við meðferð Icesave-málsins á milli annarrar og þriðju umræðu. Ljóst er að sú vinna tekur nokkurn tíma en að sama skapi er óljóst hvenær málið kemst til þriðju umræðu.

Alls hefur Alþingi 61 stjórnarfrumvarp til meðferðar. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins leggur ríkisstjórnin ríka áherslu á að um helmingur þeirra verði að lögum fyrir áramót. Fjárlög, skattalagabreytingar, Icesave og margvíslegar breytingar á lögum um félagsleg réttindi eru þar á meðal.

Í fyrra lauk þingið störfum fyrir jólaleyfi hinn 22. desember.

Alþingi sat síðast að störfum milli jóla og nýárs árið 1994.

Umræðum um fjárlög ársins 1995 lauk á næturfundi aðfaranótt Þorláksmessu en síðan var þingfundum frestað til þriðja dags jóla. Kom það þá saman til þess að afgreiða frumvörp um lánsfjárlög, breytingar á skattalögum og ráðstafanir í ríkisfjármálum. Auk þess var samþykkt að Ísland yrði meðal stofnaðila að Alþjóðaviðskiptastofnun GATT, en frestur til þess rann út um áramótin. - bþs, pg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×