Erlent

Ekki sáttur með samþykktina um loftslagsmál

Kristín María Birgisdóttir skrifar
Ekki var gengið nógu langt í loftlagssáttmála sem leiðtogar helstu iðnríkja heims samþykktu í gær. Þetta segir Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna. Hann segir samninginn pólitískt og siðferðilega mikilvægan fyrir framtíð mannkynsins, jafnvel fyrir framtíð jarðarinnar.

Leiðtogarnir samþykktu í gær samkomulag um markmið í loftlagsmálum og er þetta í fyrsta sinn sem komist er að slíku samkomulagi. Markmiðið er að hlýnun heims verði ekki meiri en tvær gráður á selsíus árið 2050 miðað við upphaf iðnbyltingarinnar. Til að ná því markmiði eiga iðnvædd ríki að draga úr útblæstri gróðurhúsaloftegunda um 80% næstu 40 árin. Önnur ríki eiga að draga minna úr útblæstrinum en miðað er við 50% minni útblástur á heimsvísu.

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands var vongóður um að leiðtogar annarra ríkja myndu fallast á markmiðin. Enn hefur ekki komið fram hvernig markmiðunum skuli náð né hver kostnaðurinn vegna þeirra verður. Dregið hefur þó úr vonum um að samkomulag náist við öll ríkin eftir að Kínverjar og Indverjar lýstu sig andsnúna samkomulaginu.

Forseti Kína, Hu Jintao, þurfti frá að hverfa í gær vegna ókyrrðarinnar í Xinjiang-héraði í vestur Kína og situr því ekki leiðtogafundinn.


Tengdar fréttir

Iðnríkin ná samkomulagi í loftslagsmálum

Fulltrúar átta stærstu iðnríkja heimsins, svokallaðra G-8 ríkja, náðu í gær samkomulagi um sameiginlegar lausnir í loftslagsmálum þegar samþykkt var að vinna að því að draga úr hlýnun jarðar þannig að hún yrði um 2 gráður á Celsius miðað við upphaf iðnbyltingarinnar og draga úr gróðurhúsaáhrifum um helming á næstu fjörtíu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×