Lífið

Drekka Guinness saman á föstudögum

Eina skráða áhugamannafélagið um Guinness hittist á hverjum föstudegi á Kringlukránni. Félagsmenn klæðast Guinness-fatnaði hvern föstudag. fréttablaðið/daníel
Eina skráða áhugamannafélagið um Guinness hittist á hverjum föstudegi á Kringlukránni. Félagsmenn klæðast Guinness-fatnaði hvern föstudag. fréttablaðið/daníel
Eina skráða íslenska áhugamannafélagið um írska drykkinn Guinness er tíu ára á þessu ári. Þessi hressi karlahópur hittist á hverju föstudagssíðdegi á Kringlukránni, ber saman bækur sínar og skellir að sjálfsögðu einum Guinness eða svo í sig.

„Þetta byrjaði á því að ég og nafni minn, Grettir Grettisson, fórum úr vinnu klukkan fimm, laumuðum okkur inn á pöbb og fengum okkur Guinness,“ segir leiðtogi félagsins, Grettir Sigurðsson, eða Grettir Sig eins og hann kallar sig. „Þegar fréttist af þessum fögnuði fór að bætast í hópinn og allir vildu vera með. Þetta endaði með því að þetta var orðinn fastur félagsskapur.“

Stífar reglur eru í félaginu og enginn kemst upp með neitt múður. „Við erum með kladda eins og í skólanum í gamla daga. Það er kallað upp og menn þurfa að senda skilaboð til leiðtoga ef þeir komast ekki. Menn fá F ef þeir hafa ekki látið leiðtoga vita og ákveðið mörg F þýða umgangur á borðið.“

En hvers vegna Guinness? „Þetta er stórmerkur mjöður. Hann er fullur af vítamíni, humlum og bætiefnum,“ útskýrir Grettir. „Hann er mjög sérstakur fyrir það að loftbólurnar fara niður en ekki upp. Þetta er rannsóknarefni vísindamanna víða um heim. Þetta er þessi skemmtilega blanda af kolsýru og köfnunarefni.“ Þeir félagar fussa og sveia yfir venjulegum bjór og kalla hann einfaldlega sullið. „Ef í harðbakkann slær látum við okkur hafa það en Guinness er alltaf númer 1, 2 og 3.“

Guinness-fyrirtækið fagnar 250 ára afmæli sínu í september og af því tilefni verður hátíð haldin á English Pub næsta fimmtudag þar sem Grettir og félagar verða að sjálfsögðu meðal gesta. - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.