Innlent

Hátekjuskatturinn miðast við árstekjur

Átta prósenta hátekjuskattur, sem byrjað verður að innheimta um mánaðamótin, leggst á allar launatekjur umfram 700 þúsund krónur, samkvæmt frumvarpi sem lagt verður fyrir þingið á næstu dögum.

Skatturinn verður innheimtur mánaðarlega en endurskoðaður í lok árs og þá reiknaður af meðalmánaðartekjum, eða heildartekjum umfram 4,2 milljónir á þessum sex mánuðum. Hafi tekjur fólks verið breytilegar eftir mánuðum, og það farið undir 700 þúsunda markið einhverja mánuði, á það þannig rétt á endurgreiðslu á næsta ári enda hafi það verið ofrukkað um hátekjuskatt. Þetta segir Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra og fyrrverandi ríkisskattstjóri og ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu.

Ekki er miðað við meðaltekjur hjóna í þessu tilliti. Breytingarnar sem kveðið verður á um í frumvarpinu gilda aðeins til loka þessa árs.

Þá verða gerðar breytingar á fjármagnstekjuskatti. Hann verður hækkaður úr tíu prósentum í fimmtán prósent af árlegum fjármagnstekjum, sem eru vaxtatekjur, arður af hlutabréfum, söluhagnaður og leigutekjur. Frítekjumark fjármagnstekna verður hins vegar hækkað í 250 þúsund krónur, úr engu. Fjármagnstekjum hjóna er dreift jafnt á þau.

Einnig stendur til að hækka tryggingagjald, sem atvinnuveitendur greiða í atvinnutryggingasjóð, í því skyni að styrkja sjóðinn vegna aukins atvinnuleysis. Þá á að leggja sérstakan skatt á sætindi og gosdrykki.

Með skattahækkununum hyggjast stjórnvöld reyna að brúa 20 til 25 milljarða fjárlagagat þessa árs. Áætlað er að hátekjuskatturinn skili um 2,5 milljörðum á þessu ári og um fjórum milljörðum á ársgrundvelli. Þá á breytingin á fjármagnstekjuskattinum að skila um sex milljörðum í ríkiskassann og hækkun tryggingagjaldsins um tólf milljörðum á ársgrundvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×