Erlent

Byrjaður að dusta rykið

„Ég er sáttur við árangurinn sem við höfum náð, en þó ekki ánægður," sagði Barack Obama um fyrstu hundrað daga sína í starfi. Í gær voru liðnir hundrað dagar frá því hann tók við embætti forseta Bandaríkjanna við hátíðlega athöfn í Washington. Obama hefur ekki setið verkefnalaus þessa fyrstu daga, heldur þurft að glíma við erfiða efnahagskreppu og umdeilda arfleifð forvera síns á alþjóðavettvangi.

„Við erum byrjuð að byggja okkur upp og dusta af okkur rykið," sagði Obama í gær í St. Louis, þar sem hann kom fram á fjölmennum fundi. „Við eigum margt eftir ógert," bætti hann þó við.

Mannréttindasamtökin Amnesty International segja að Obama hafi ekki enn tekist að hrista af Bandaríkjunum slyðruorð fyrri stjórnar í mannréttindamálum. Stefna nýja forsetans einkennist fremur af loforðum um breytingar en raunverulegum aðgerðum.

Þótt hann hafi til dæmis lofað lokun Guantanamo-búðanna og sagst hafa stöðvað notkun pyntinga hafi enn lítið gerst í málefnum fanganna á Kúbu.

„Frá sjónarhóli fanganna hafa stjórnarskiptin nánast enga þýðingu haft," segir Rob Feer, einn af höfundum skýrslunnar. „Sumir þeirra hafa verið í haldi í sjö ár og þurfa hraða úrlausn sinna mála."

Bandaríkjaforseti notaði hundrað daga áfangann meðal annars til að fagna öldungadeildarþingmanninum Arlen Specter, sem á þriðjudag skýrði frá því að hann væri genginn úr Repúblikanaflokknum og til liðs við demókrata.

Demókratar eru þar með komnir með 59 þingsæti í öldungadeildinni, þar sem hundrað þingmenn eiga sæti. Þeir vonast enn fremur til þess að fá sextugasta sætið þegar loks fæst úr því skorið hver vann sigur í þingkosningunum í Minnesota í nóvember síðastliðnum. Þar er endurtalningu atkvæða enn ekki endanlega lokið.

Daginn áður hafði öldungadeildin gefið samþykki sitt fyrir því að Kathleen Sebelius, ríkisstjóri í Kansas, yrði heilbrigðismálaráðherra í ríkisstjórn Obamas. Þar með er ríkisstjórnin loks fullskipuð, hundrað dögum frá því hún tók til starfa.- gb








Fleiri fréttir

Sjá meira


×