Innlent

Eitt núll fyrir Ísland

Það er eitt núll fyrir Ísland segir sérfræðingur í Evrópumálum um niðurstöðu eftirlitsstofnunar EFTA um að neyðarlögin haldi. Hinsvegar geti málið farið til EFTA dómstólsins sem gæti komist að annarri niðurstöðu.

Eftirlitsstofnun EFTA hefur komist að þeirri niðurstöðu að forgangur sem innistæðum var veittur með neyðarlögunum fái staðist og að íslensk stjórnvöld höfðu rétt til að verja bankakerfið og almannaöryggi. Stofnuninni hafði borist kvörtun frá hópi kröfuhafa vegna setningu neyðarlaganna.

Einar Páll Tamimi, lögfræðingur og sérfræðingur í Evrópumálum segir þetta veita mikla vísbendingu um hver lokaniðurstaða ESA verður í þessu máli. Hinsvegar geti málið farið til EFTA dómstólsins í ráðgefandi álit vegna málshöfðunar hérlendis. Það gæti farið á annan veg en niðurstaða ESA. Þá taki niðurstaðan á fáum álitamálum sem upp komu í tengslum við hrunið.

„Það eru ákveðin mál sem ekki reynir á enn sem gætu haft umtalsverðar afleiðingar eins og ábyrgð á innistæðunum sem ríkisstjórnin gaf út. Hún náði einungis til innistæðna í innlendum útibúum íslenskra banka en ekki erlendra og fleiri álitamál gætu einnig komið til skoðunar sem gætu reynst kannski ívið þyngri en þessi. En við megum nú vera ánægð með það sem við höfum fengið og það er eitt núll fyrir Ísland ef hægt er að segja svo," segir Einar Páll.




Tengdar fréttir

Eftirlitsstofnun EFTA segir neyðarlögin halda

Eftirlitsstofnun EFTA fellst á sjónarmið íslenskra stjórnvalda varðandi lögmæti neyðarlaganna sem sett voru þann 6. október í fyrra. Tekið er fram að forgangur sem innistæðum var veittur fær staðist, að íslensk stjórnvöld höfðu rétt til að verja bankakerfið og almannaöryggi. Ekki er fjallað um hugsanlega mismunun milli innlendra og erlendra innistæðueigenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×