Erlent

Minnast 9/11

Víða um heim er þess nú minnst að átta ár eru liðin í dag frá hryðjuverkaárásunum á Tvíburaturnana.

Athöfn verður haldin á Ground Zero svæðinu þar sem turnarrnir stóðu áður en þeir féllu til grunna þann 11. september 2001 þegar tveimur farþegaflugvélum var flogið á þá af hryðjuverkamönnum. 19 menn tengdir samtökunum Al Kaída rændu fjórum farþegaflugvélum og flugu tveimur þeirra á turnana og einni á bandaríska varnarmálaráðuneytið Pentagon í Washington.

Fjórða vélin hrapaði til jarðar í Pennsylvaníu. 2603 eru sagðir hafa látist í turnunum og á jörðu niðri auk þess sem allir farþegar flugvélanna biðu bana, 246 að tölu. Þá létust 125 í Pentagon og til samans dóu 2993 manneskjur frá 90 löndum í þessum mannskæðu árásum.

Ground zero svæðið er enn á byggingarstigi en fyrirhugað er að byggja minnismerki um atburðinn, safn og fimm skýjakljúfa. Það hefur hins vegar ekki gengið snuðrulaust fyrir sig að koma verkefninu á kopinn og hafa fjölmörg deilumál risið sem tafið hafa uppbyggingu á svæðinu auk þess sem kreppan hefur sín áhrif. Þó er gert ráð fyrir því að fyrsti turninn verði kláraður árið 2013 en í nýlegri könnun sem fréttastofa BBC vísar til kemur fram að meirihluti New York búa hefur litla trú á því að það takmark náist.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×