Lífið

Selst hratt á aukatónleika Jethro Tull

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Jethro Tull á sviði.
Jethro Tull á sviði.

Miðar seljast hratt á aukatónleika Jethro Tull að sögn Birgis Daníels Birgissonar, tónleikahaldara.

Miðasala hófst klukkan tíu í morgun, en aðeins tveim tímum síðar höfðu sexhundruð miðar selst að því er kemur fram í tilkynningu. Tónleikarnir fara fram í Háskólabíó og er húsrúmið því um þúsund manns.

Birgir Daníel segist að sjálfsögðu ánægður með þessar móttökur, þó þessi viðbrögð komi ekki á óvart enda hafi verið troðfullt á tónleikum sveitarinnar árið 2007.

Tónleikarnir, sem haldnir verða í góðgerðaskyni þann 11. og 12. september, eru að frumkvæði Ian Anderson, forsprakka sveitarinnar.

Á vefnum midi.is kemur fram að Anderson hafi verið djúpt snortinn af fréttum af bankahruninu og hvernig það bitnaði á íslensku þjóðinni.

Allur ágóði tónleikanna rennur því til Vildarbarna og Fjölskylduhjálpar Íslands.

Miðasala fer fram á midi.is og í verslunum Skífunnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.