Erlent

Keppni harðnar um sjö undur veraldar

Kilimanjaro Þetta tignarlega fjall í Afríku er meðal þeirra náttúruundra sem hvað merkilegust þykja.nordicphotos/AFP
Kilimanjaro Þetta tignarlega fjall í Afríku er meðal þeirra náttúruundra sem hvað merkilegust þykja.nordicphotos/AFP
Bretland, ap Búist er við því að milljarður manna taki þátt í alþjóðlegri net- og símakosningu um það, hvaða sjö náttúrufyrirbæri teljast merkust hér á jörð. Í vikunni var skýrt frá því, hvaða 28 undur eru komin í úrslitakeppnina.

„Þessari samkeppni er ætlað að stuðla að því að við kunnum betur að meta – og þekkjum betur – umhverfi okkar, ekki aðeins í okkar eigin landi heldur úti um allan heim,“ segir svissneski ævintýramaðurinn Bernard Weber, sem er frumkvöðull kosningarinnar.

„Ef við viljum að börnin okkar varðveiti eitthvað, þá þurfum við fyrst að kunna að meta það.“

Alls var 261 náttúrufyrirbæri víðs vegar um heim tilnefnt í keppnina. Í fyrri umferð kosningarinnar komust 77 þeirra í undanúrslit, og nú hefur hópur sérfræðinga valið 28 þeirra í endanlegu úrslitakeppnina.

Hægt er að greiða atkvæði á vefsíðunni www.new7wonders.com, eða símleiðis. Úrslit verða þó ekki endanlega ljós fyrr en árið 2011.

Árið 2007 var greint frá úrslitum í sams konar keppni um sjö manngerð undur veraldar, sem áttu að leysa af hólmi hin fornu sjö undur veraldar, sem þekkt eru úr mannkynssögunni.

Niðurstaðan þá varð sem hér segir: Taj Mahal á Indlandi, Chichen Itza í Mexíkó, Kristsstyttan í Brasilíu, Kolosseum á Ítalíu, Kínamúrinn í Kína, Petra í Jórdaníu og Machu Picchu í Perú.

Samkeppnin var óneitanlega hörð, því hvorki píramídarnir miklu í Gísa, stytturnar á Páskaeyjum, Stonehenge á Bretlandi né Eiffel-turninn í París hlutu náð kjósenda.gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×