Lífið

Vildu heilsa upp á land og þjóð

Bob haley Norska kántríhljómsveitin heldur þrenna tónleika á næstu dögum.
Bob haley Norska kántríhljómsveitin heldur þrenna tónleika á næstu dögum.
Norska hljómsveitin Bob Haley er komin hingað til lands og mun halda þrenna tónleika. Þeir fyrstu verða í kvöld á Café Rósenberg. Hljómsveitin, sem hefur verið starfrækt í fimm ár, leikur „diskóþjóðlagatónlist“ og að sögn Jonasar Tjersland, fiðluleikara hljómsveitarinnar, eru tónlistarmenn á borð við Ryan Adams og Neil Young í miklu uppáhaldi hjá hljómsveitarmeðlimum.

„Við spilum ekki hefðbundna kántrítónlist, heldur það sem við köllum diskókántrí sem er léttara en venjulegt kántrí,“ segir hann um tónlistina.

Hljómsveitin mun dvelja á Íslandi í viku og heldur tónleika í Skrúðgarðinum á Akranesi annað kvöld og á Grundarfirði á föstudaginn.

Tjersland segir áhugann á Íslandi hafa kviknað í kjölfar bankahrunsins, en landið hefur hlotið mikla umfjöllun í Noregi að hans sögn. „Við höfum lesið mikið um Ísland síðastliðið ár og okkur langaði að koma og kanna aðstæður sjálf. Okkur langaði í raun bara að koma og heilsa upp á land og þjóð. Við höfum líka verið að fylgjast svolítið með íslenskri tónlist og þekkjum meðal annars til hljómsveitarinnar Hjaltalín, múm, Bjarkar og Stjórnarinnar,“ segir Tjersland að lokum. -sm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.