Innlent

Töluvert annríki hjá lögreglu í gær

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Töluvert annríki var hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gær en eins og komið hefur fram í fréttum er mikill niðurskurður á fjárlögum til embættisins.

Tveir karlar á fertugsaldri voru handteknir í Reykjavík í gær. Í fórum þeirra fundust munir sem þeir gátu ekki gert grein fyrir. Mál þeirra eru óskyld en annar þeirra hefur játað innbrot í miðborginni. Karl um þrítugt var einnig handtekinn í austurborginni í gær en sá freistaði þess að komast undan með vörur úr stórmarkaði án þess að greiða fyrir þær. Maðurinn hafði setti vörur í innkaupakerru en var stöðvaður með hana fyrir utan verslunina.

Tvær unglingsstúlkur voru líka staðnar að hnupli í Smáralind. Þær voru fluttar á lögreglustöð en þaðan var hringt í forráðamenn þeirra sem komu og sóttu stúlkurnar.

Snemma í morgun voru karl og kona á þrítugsaldri handtekin við hús í Garðabæ. Þau voru sakleysið uppmálað þegar lögreglan kom á vettvang en í bíl þeirra fundust munir sem talið er að séu illa fengnir.



Skemmdarverk í Reykjavík


Karl um þrítugt var handtekinn í Hlíðunum í gær en þar hafði hann brotið tvær rúður í fjölbýlishúsi. Maðurinn var fluttur á lögreglustöð en ekki er vitað hvað honum gekk til. Rúða var sömuleiðis brotin hjá fyrirtæki í miðborginni en skemmdarvargurinn er ófundinn. Rúða var líka brotin í bíl í Breiðholti og þá voru unnar skemmdir á tveimur bílum, öðrum í Grafarvogi en hinum í vesturbæ borgarinnar.



Innbrot og þjófnaðir


Nokkur innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Brotist var inn í tvo bíla í Elliðaárdal og einn í Hafnarfirði en vegna þessa vill lögreglan ítreka að verðmæti séu ekki höfð í augsýn í ökutækjum. Innbrotsþjófar voru líka á kreiki í miðborginni og stálu tölvu og bakpoka úr kjallaraíbúð. Gamall gítar og útidyramotta hurfu frá leikskóla í vesturbæ borgarinnar og í austurborginni var veiðigræjum stolið úr geymslu verslunar- og þjónustuhúss.

Tölva, myndavél og áfengi var tekið úr íbúð í Kópavogi og hljómflutningstækjum var stolið úr húsi í Mosfellsbæ. Verkfærataska var tekin ófrjálsri hendi í miðborginni og í sama hverfi var bíl stolið síðdegis. Bíllinn fannst óskemmdur nokkru síðar en þjófurinn er hinsvegar ófundinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×