Erlent

Breskt vikublað sagt staðið að hlerunum

Forsíðufrétt Guardians Vikublaðið News of the World á borðinu fyrir framan.
nordicphotos/AFP
Forsíðufrétt Guardians Vikublaðið News of the World á borðinu fyrir framan. nordicphotos/AFP

Breska vikublaðið News of the World, sem er í eigu ástralska fjölmiðlajöfursins Ruberts Murdochs, er sagt hafa stundað hleranir í stórum stíl.

Blaðið greiddi einkasnuðrurum fyrir að útvega sér talskilaboð úr farsímum fólks, sem síðan voru notuð til að komast yfir bankareikningsupplýsingar, einkasímanúmer og fleiri upplýsingar.

Annað breskt dagblað, Guardian, sem þykir heldur vandara að virðingu sinni þótt ekki seljist það jafn vel, ljóstraði upp um þetta í gær. Yfirmaður lögreglunnar í London, Paul Stephenson, lýsti því í kjölfarið yfir að málið yrði rannsakað sem lögreglumál.

Gordon Brown forsætis­ráðherra segir málið vekja alvarlegar spurningar sem augljóslega þurfi að fá svör við.

„Við munum gera ítarlega rannsókn og fylgja málinu eftir,“ segir Stephenson lögreglustjóri.

Samkvæmt fréttinni í Guardian beindu blaðamenn News of the World spjótum sínum meðal annars að leikkonunni Gwyneth Palthrow, söngvaranum George Michael, borgarstjóranum Boris Johnson og sjónvarpskokkinum Nigellu Lawson, auk stjórnmálamanna úr þremur stjórnmálaflokkum.

Blaðið hefur, samkvæmt Guardian, greitt þremur fórnarlamba sinna með leynd samtals meira en milljón pund, eða rúmlega 200 milljónir króna, til að komast hjá dómsmálum vegna þessa athæfis.

Fréttin í Guardian vekur enn á ný upp gamla umræðu um siðferði breskra dagblaða, sem eiga í grimmilegri samkeppni um bæði lesendur og fréttir. Kræsileg frétt um þekktan einstakling getur skilað blaðinu gríðarlegri sölu, og því er oft kostað miklu til að útvega fréttir á undan öðrum.

Breska persónuverndin segir að árið 2006 hafi hún afhent lögreglunni upplýsingar um að 31 blaðamaður hjá News of the World og systurblaði þess, dagblaðinu The Sun, hafi átt í viðskiptum með ólöglega fengnar persónu­upplýsingar.

Árið 2007 féll síðan dómur í máli Clive Goodmans, sem var yfirmaður þeirrar deildar blaðsins sem sér um fréttir af konungsfjölskyldunni. Hann hlaut fjögurra mánaða fangelsisdóm fyrir að hlera farsíma hjá starfsfólki konungsfjölskyldunnar. Samstarfsmaður hans, Glenn Mulcaire einkaspæjari, hlaut sex mánaða fangelsisdóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×