Innlent

Kafara bjargað úr sjónum við Garð

Úr myndasafni.
Úr myndasafni.
Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út klukkan 18:30 í kvöld vegna kafara sem lenti í vandræðum rétt fyrir utan höfnina í Garði á Suðurnesjum. Kafarinn var að koma að landi þegar mikill straumur greip hann og bar frá landi. Maður sem var á bryggjunni í Garði að fylgjast með köfuninni kallaði eftir aðstoð.

Björgunarsveitin Ægir frá Garði, Sigurvon frá Sandgerði og Björgunarsveitin Suðurnes voru kallaðar út og fóru bátar af stað frá öllum sveitunum ásamt köfurum frá Grindavík.

Slöngubátur björgunarsveitarinnar Ægis var fyrstur á staðinn og með í för voru slökkviliðsmenn. Maðurinn náðist úr sjónum og reyndist í ágætu ásigkomulagi. Hann var fluttur að landi þar sem honum var komið í sjúkrabíl sem fór með hann til skoðunar á Heilbrigðistofnun Suðurnesja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×