Innlent

Orð Davíðs dæma sig sjálf

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, segir niðrandi ummæli Davíðs Oddssonar, fyrrverandi seðlabankastjóra, um Svein Harald Øygard seðlabankastjóra dæma sig sjálf.

Davíð sagði Svein Harald annað hvort lygara eða haldinn Alzheimer sjúkdómnum. Steingrímur telur þau orð, og önnur í ræðu Davíðs á landsfundi Sjálfstæðisflokksins á laugardag, hvorki skaða Svein Harald né Seðlabankann. „Nei, þetta eru ummæli sem dæma sig svo gjörsamlega sjálf."

Steingrímur kveðst ekki ætla að tjá sig efnislega um ræðu Davíðs sem hann lagði á sig að horfa á á netinu. „En mér fannst merkileg upplifun að heyra klappað í hálftíma fyrir þessum málflutningi. Framsetning mála var af því tagi að mér fundust brandararnir ekki fyndnir," segir Steingrímur.

Spurður um mat sitt á landsfundi sjálfstæðismanna almennt segir Steingrímur afneitun og úrræðaleysi hafa einkennt hann. „Það er dapurlegt að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að flýja frá veruleikanum, leggjast í hræðsluáróður og draga upp skattahækkanagrýlu án þess að svara hvernig hann hyggst takast á við fjárlagahallann sem er hans arfleifð. Þá er nú stórmannlegra að viðurkenna viðskilnaðinn."

Steingrímur óskar Bjarna Benediktssyni til hamingju með formannskjörið og kveðst vænta góðs af honum enda hafi þeir átt ágætt samstarf í þinginu.

- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×