Innlent

Hækkar lán og ferðakostnað

bensíni dælt Aðeins er farinn að þyngjast róðurinn fyrir bílaeigendur eftir að verð hækkaði á öllu bensíni um 12,5 krónur hjá Olís í gær.fréttablaðið/gva
bensíni dælt Aðeins er farinn að þyngjast róðurinn fyrir bílaeigendur eftir að verð hækkaði á öllu bensíni um 12,5 krónur hjá Olís í gær.fréttablaðið/gva

Olís hækkaði verð á öllu bensíni um 12,5 krónur í gær og er lítrinn á blýlausu bensíni rúmlega 190 krónur á flestum sölustöðum.

Hækkunin er tilkomin vegna breytinga á vörugjöldum sem tóku gildi 28. maí. Þær birgðir sem félagið átti fyrir hækkunina kláruðust 18. júní síðastliðinn, en síðan þá hefur fyrirtækið tvisvar flutt inn bensín.

„Þessi hækkun er einfaldlega endurspeglun á þeim skattahækkunum sem ríkisstjórnin lögleiddi á dögunum og lýsir þeim veruleika sem íslenskir neytendur búa við,“ segir Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður. Hann segir þessa hækkun skila sér beint inn í vísitölu neysluverðs, sem skili sér í hækkun lána landsmanna.

Hin olíufélögin hafa ekki fylgt í kjölfarið en talið er líklegt að það styttist í það. Birgðirnar dugi í mesta lagi út mánuðinn.

„Það gefur augaleið að svona mikil hækkun á bensínverði hefur áhrif á ferðaþjónustu og búast má við að margir keyri minna en ella,“ segir Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustu.

„Allar skattahækkanir sem hækka ferðakostnað eru áhyggjuefni og alltaf hætta á að fólk dragi úr keyrslu,“ segir Erna.- vsp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×