Innlent

Northern Travel Holding stefnir í gjaldþrotaskipti

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Líklegt er að óskað verði eftir gjaldþrotaskiptum Northern Travel Holding á næstu dögum. Engar eignir og aðeins skuldir eru eftir í félaginu.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Einu eignir Northern Travel Holding eru dönsku flugfélögin Sterling og Flyselskapet sem bæði eru gjaldþrota. Aðrar eignir hafa verið seldar til Fons, eignarhaldsfélags Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, sem einnig hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Það er því ekkert eftir í Northern Travel Holding nema skuldir.

Áður en að Fons var tekið til gjaldþrotaskipta voru breska flugfélagið Astraeus og Iceland Express seld frá Fons til Fengs, sem einnig er í eigu Pálma. Salan á Iceland Express er nú skoðunar hjá skiptastjóra þrotabús Fons. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins verður óskað eftir því að sami skiptastjóri verði settur yfir Northern Travel Holding.

Fons greiddi sér 4,4 milljarða króna í hagnað vegna árangurs á árinu 2007. Arðgreiðslunar fóru til félags í Lúxemborg í eigu Pálma og Jóhannesar. Rúmu ári síðar var Fons tekið til gjaldþrotaskipta. Helstu lánardrottnar Fons eru stóru íslensku bankarnir þrír.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×