Innlent

Árni og Bjarni hunsa reglur

Árni Johnsen
Árni Johnsen

Þingmennirnir Árni Johnsen og Bjarni Benediktsson úr Sjálfstæðisflokki höfðu í gærkvöldi ekki skráð fjárhagslega hagsmuni sína hjá skrifstofu forseta Alþingis, né útskýrt þar hvers vegna þeir gera það ekki.

Frestur til skráningar rann út í fyrradag, en núverandi þingmenn hafa haft rúman mánuð til að skila upplýsingunum.

Reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum þeirra utan þings voru samþykktar 16. mars á fundi forsætisnefndar.

Þingmenn eru ekki skyldugir til að fara eftir reglunum, en á skrifstofu forseta Alþingis er litið á það sem pólitíska og siðferðilega skyldu þeirra að gera svo.

Þess skal getið að einn þingmaður Vinstri grænna, Atli Gíslason, er í leyfi og hefur heldur ekki lokið við skráningu. Atli hafði hins vegar látið skrifstofu forseta Alþingis vita af þessu og að hann myndi skrá hagsmuni sína síðar. Hann telst því löglega afsakaður.

Upplýsingar um hagsmuni þingmanna má lesa á vef Alþingis, á síðu hvers þingmanns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×