Innlent

Mikill verðmunur á milli sumarnámskeiða fyrir börn

Mynd/GVA

Í yfirliti sem verðlagseftirlit ASÍ tók saman um sumarnámskeið barna kemur fram að mikill verðmunur er á milli námskeiða sem í boði eru. Ljóst er að þetta getur verið talsvert kostnaðarsamt fyrir margar fjölskyldur að skipuleggja dagskrá fyrir börn sín í fjórar til sex vikur á sumri þegar skólar eru í fríi.

Mörg íþróttafélög bjóða upp á íþróttanámskeið hálfan daginn eða í þrjár klukkustundir fyrir börn frá fimm ára aldri. Námskeiðin eru eina til tvær vikur í senn og er allnokkur verðmunur milli íþróttafélaga. Íþróttafélögin bjóða einnig ýmis önnur sumarnámskeið fyrir börn, bæði hálfan og allan daginn, sem eru misjöfn milli félaga. Hægt er að sjá yfirlit yfir verðsamanburð verðlagseftirlitsins hér fyrir neðan.

Í tilkynningu ASÍ er tekið dæmi af fjölskyldu í Reykjavík með eitt barn sem fer í tvær vikur á heildags sumarnámskeið hjá ÍTR og í tvær vikur á námskeið allan daginn hjá íþróttafélagi í borginni og þarf að vera í gæslu frá klukkan átta á morgnana þar til námskeiðin hefjast klukkan níu. Fjölskyldan arf að greiða á bilinu 29 til 45 þúsund krónur eftir því hjá hvaða íþróttafélagi námskeiðið er. Kostnaður getur margfaldast ef mörg börn eru í fjölskyldu og ef barnið er í lengri tíma yfir sumarið í skipulagðri dagskrá. Hér geti því verið um talsverðar upphæðir að tefla sem reynst geta mörgum fjölskyldum þungur baggi.

Af þeim námskeiðum sem starfrækt eru á vegum íþrótta- og tómstundarráða og -nefnda sveitarfélaga er ódýrast fyrir 7 til 9 ára börn að fara á íþrótta- og leikjanámskeið í Hafnarfirði sem kostar 3 þúsund krónur á viku allan daginn en dýrast að fara á ævintýranámskeið í Mosfellsbæ, en það kostar 9 þúsund krónur. Ein vika á hálfsdagsnámskeiði fyrir 6 til 9 ára kosta frá 3000 þúsund í Kópavogi upp í 8900 krónu sem er Tækni LEGO námskeið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×