Innlent

Vilja aftur búskap á Hrafnseyri

Hreinn og Hildigunnur vonast til þess að meira líf færist í nágrannabæinn á Hrafnseyri.
fréttablaðið/jón Sigurður
Hreinn og Hildigunnur vonast til þess að meira líf færist í nágrannabæinn á Hrafnseyri. fréttablaðið/jón Sigurður

Búnaðarsamband Vestfjarða mun senda forsætisráðuneytinu á næstu dögum áskorun um að stuðla að því að búskapur verði hafinn á nýjan leik á Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar.

Stjórn Búnaðarfélags Auðkúluhrepps á frumkvæði að málinu en í því sitja bæði Hallgrímur Sveinsson, sem síðast var þar með búskap eða til ársins 2005, og hjónin Hreinn Þórðarson og Hildigunnur Guðmundsdóttir frá Auðkúlu sem er næsti bær við Hrafnseyri.

„Það er áríðandi fyrir okkur að fá tengingu við þetta svæði hérna, þá kemst sveitin okkar aftur í byggð," segir Hildigunnur sem vonast til þess að ef ungt og drífandi fólk hæfi þar búskap myndi krafan um samgöngubætur við svæðið fá byr undir báða vængi.

Árni Brynjólfsson, formaður Búnaðarsambands Vestfjarða, segir hugmyndina að fá stjórnvöld til að athuga hvort áhugi sé til staðar hjá ungu fólki til að hefja þar búskap og ef svo sé að greiða götu nýrra ábúenda svo líf komist aftur í mannvirkin á staðnum. Aðeins einn starfsmaður hefur verið á Hrafnseyri yfir sumartímann frá því að búskap var hætt. Hildigunnur segir að flokkur sveitunga þynnist óðum en þau sjálf hafa hætt búskap og búa yfir háveturinn á Þingeyri. „Við erum svo alveg eins og kálfar á vori þegar við komum hingað í apríl," segir hún og hlær við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×