Jóhann Hlíðar Harðarson, upplýsingafulltrúi Háskólans í Reykjavík, segir setu Svöfu Grönfeldt í bankaráði Landsbankans ekki hafa neitt með HR að gera, enda hafi HR ekki átt neina fjármuni í Landsbankanum. Þetta áréttar Jóhann vegna greinarinnar Fjórar bækur um hrun eftir Þorvald Gylfason, sem birtist í Fréttablaðinu í morgun.
Í greininni fjallar Þorvaldur meðal annars um bækur Guðna Th. Jóhannessonar og Þorkels Sigurlaugssonar um atburðina eftir hrun. Í greininni stendur: „Rektor Háskólans í Reykjavík, þar sem þeir Guðni og Þorkell starfa báðir, hefur lýst því á starfsmannafundum í skólanum, hvernig henni tókst að forða sjóðum skólans í skjól í tæka tíð, áður en hún hvarf úr bankaráði Landsbankans eftir hrunið."
Jóhann Hlíðar segir fjármuni HR hafa verið geymda í Glitni, en ekki Landsbankanum, og því hafi bankaráðsseta Svöfu ekkert með skólann að gera.
„HR tók þá peninga úr Glitni og keypti ríkisskuldabréf og síðan þá hafa þeir peningar verið í umsjá Auðar Capital," segir Jóhann. „Þetta er skýringin á hennar ummælum í haust." Jóhann segir þessa ráðstöfun aldrei hafa verið leyndarmál.
Aðspurður hvaða skoðun hann hafi á grein Þorvaldar segist Jóhann ætla að leyfa sér að hafa ekki skoðun á henni.
Fréttastofa hafði samband við Þorvald Gylfason í dag en hann vildi ekki tjá sig um málið umfram það sem stóð í grein hans í Fréttablaðinu.