Innlent

Vetrarhátíð hefst í Reykjavík í dag

Frá vetrarhátíð
Frá vetrarhátíð MYND/Af vef Reykjavikurborgar

Vetrarhátíð hefst í Reykjavík í dag en boðið er upp á afar fjölbreytta dagskrá þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Hátíðin hófst reyndar í morgun með pottaspjalli í Breiðholtslaug á Menningarhátíð eldri borgara.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Þar segir ennfremur að glæsileg brúðuleikhússýning opni í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag og í Hinu húsinu býður TFA viðburðir og hiphop.is í bíó þar sem sýndar verða nokkrar klassískar hiphiop myndir í balnd við nýrra efni.

Hátíðin verður svo formlega sett kl. 19:00 í Fógetagarðinum við Aðalstræti og um leið hefst stórglæsileg Safnanótt sem stendur fram til miðnættis. Borgarstjórinn í Reykjavík, Hanna Birna Kristjánsdóttir, setur Vetrarhátíð í Fógetagarðinum við Aðalstræti við upphaf Safnanætur. Að setningu lokinni er gestum boðið á fortíðarflakk í Grjótaþorpinu.

Þetta er óvissuferð: Ofarlega í Grjótaþorpinu má kannski sjá Erlend í Unuhúsi bjóða Þórbergi í nefið. Mjaltastúlka ver mjólkina fyrir mjálmandi kettinum. Vatnsberinn flytur fólki nýjustu sögur úr bæjarlífinu á milli ferða. Vaktarinn gætir þess að allt fari fram með ró og spekt. Hér varð Reykjavík til! Með aðstoð lýsingar, hljóða, kvikmynda- og leiklistar hverfur Grjótaþorpið aftur til 19. aldar.

Á sýningu Leikminjasafns Íslands verða sýnd verða nokkur sýnishorn af leikbrúðum Jóns E. Guðmundssonar (1915 - 2004), helsta brautryðjanda íslensks brúðuleikhúss á síðustu öld. Sýningin verður opnuð með lifandi brúðuleikhúsi. Kl. 13.30 og 14.30: Brúðuleikhús Helgu Steffensen: Númi á ferð og flugi. Kl. 15.30: Brúðuleikhúsið Tíu fingur undir stjórn Helgu Arnalds flytur Mjallhvít. Leikskólar frá ýmsum hverfum borgarinnar munu leggja leið sína í Ráðhúsið auk annarra gesta.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×