Innlent

Vilja takmarka afgreiðslutíma skemmtistaða í miðborginni

Íbúasamtök miðborgar samþykktu á aðalfundi sínum í gær tillögur er snúa að staðsetningu og afgreiðslutíma áfengisveitingastaða í miðborg Reykjavíkur. Samtökin vilja að afgreiðslutími allra veitingastaða í miðborginni verði aldrei lengri til klukkan þrjú aðfaranótt laugardaga og sunnudaga.

Þá vilja samtökin að hálftíma taki að koma fólki út af stöðunum og að skilgreint verði hvaða staðir séu næturklúbbar og þeim fundnir viðeigandi staðir fjarri íbúabyggð enda geti þeir verið opnir lengur. Ennfremur vilja samtökin að tryggt verði að hávaði frá veitingastöðum í miðborginni sé í lágmarki þannig að íbúar hafi svefnfrið.

Að lokum skora samtökin á borgaryfirvöld að við endurskoðun aðalskipulags sem nú stendur yfir og þar með endurskoðun á Þróunaráætlun miðborgar frá árinu 2000 verði endurskoðaðar allar reglur um veitingastaði „þannig að íbúabyggð og veitingahús geti farið saman án þess að gengið sé freklega á rétt íbúa eins og nú er."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×