Lífið

Hljómalindarfólk á götunni á ný

Hljómlind hættir. Helena Stefánsdóttir, ein fjögurra eigenda Hljómalindar, vonar að hægt verði að hefja rekstur í nýju húsnæði í nánustu framtíð.fréttablaðið/Stefán
Hljómlind hættir. Helena Stefánsdóttir, ein fjögurra eigenda Hljómalindar, vonar að hægt verði að hefja rekstur í nýju húsnæði í nánustu framtíð.fréttablaðið/Stefán

„Síðasti opnunardagurinn var á sunnudaginn og við erum bara að pakka öllu dótinu niður í þessum töluðu orðum,“ segir Helena Stefánsdóttir, ein fjögurra eigenda Kaffi Hljómalindar sem hætti rekstri á mánudaginn. Ástæða þess mun vera sú að Hljómalindarfólkið fékk ekki framlengdan leigusamninginn og missti því húsnæðið.

„Þegar við tókum húsnæðið á leigu á sínum tíma gerðum við það upp fyrir næstum sex milljónir. Við áttum að fá að endurnýja samninginn og vera hér næstu árin og þess vegna lögðum við mikla vinnu og pening í að gera húsnæðið upp. Leigusalinn ákvað svo að hækka leiguna áður en nýr samningur var gerður og við höfðum einfaldlega ekki efni á því að borga þá upphæð og í kjölfarið sagði hann okkur upp leigunni.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hljómalindarfólkið þarf að flytja sig um set því umræddur leigusali rak þau einnig úr Hljómalindarhúsinu við Laugaveg 21 árið 2008.

„Fólkið sem kom á eftir okkur inn í Hljómalindar­húsið var mjög heppið, það þurfti lítið að gera við húsnæðið til að byggja upp sinn rekstur. Svipað átti sér stað með skemmtistaðinn Sirkus, en það húsnæði er í eigu sama aðila, þar var leigutaka sagt upp og húsið stendur enn autt,“ segir Helena.

Hún segir að eigendur Hljómalindar leiti nú að nýju húsnæði í miðbæ Reykjavíkur og segir jafnvel koma til greina að kaupa hús undir reksturinn.

„Það kemur vel til greina að kaupa einfaldlega húsnæði til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig enn eina ferðina. Vonandi getum við byrjað aftur sem allra fyrst, enda hefur Hljómalind þjónað sem hálfgerð félagsmiðstöð bæði fyrir fjölskyldufólk og ungmenni um árabil.“ - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.