Innlent

Fundi lokið í Alþingishúsinu - málefnahópar hittast í kvöld

Fundi forystumanna VG og Samfylkingar um myndun ríkisstjórnar sem staðið hefur yfir síðan klukkan tvö í dag er lokið. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Steingrímur J. Sigfússon ræddu við fréttamenn að fundi loknum en næsti fundur er áætlaður í fyrramálið. Í kvöld verður hinsvegar unnið í starfshópum á vegum flokkanna. Á þeim mátti skilja að viðræður hefðu gengið vel í dag en þau vildu ekkert gefa upp um skipun í ráðherraembætti.

Ingibjörg Sólrún sagði að það væri sín hugmynd að Jóhanna Sigurðardóttir myndi leiða ríkisstjórnina en ekkert væri komið á hreint í þeim efnum. Aðspurð hversvegna Jóhanna sæti þá ekki þessa fundi sagði Ingibjörg að það væru formenn flokkanna sem funduðu en Jóhanna hefði verið í góðu sambandi við sig í allan dag. „En að sjálfsögðu mun hun koma að borðinu síðar meir."

Steingrímur sagði mikilvægast að draga fram brýnustu málin og leggja áherslu á þau en ekki flækja málin með öðru sem ekki vegur eins þungt.

Þau sögðust bjartsýn á væntanlegt samstarf í ríkisstjórn. Steingrímur sagði ljóst að sum atriði lægju þegar ljós fyrir og nefndi í því sambandi eftirlaunalögin svokölluðu sem yrðu afnumin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×