Erlent

Vopnabrak og gnýr á G20-fundi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Táragas og tuddaskapur einkenndu upphaf hins svokallaða G20-fundar í Pittsburgh sem hófst í gær.

Gráir fyrir járnum mættu óeirðalögreglumenn Pittsborgar í Pennsylvaniu um það bil 300 mótmælendum sem gerðu vopnabrak og gný mikinn við setningu fundar 19 stærstu iðnríkja heimsins að viðbættu Evrópusambandinu. G20-fundurinn, eins og hann nefnist, fer fram í David Lawrence-ráðstefnumiðstöðinni og að vanda flykkjast andstæðingar alþjóðavæðingar á staðinn og reyna að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Sumir mótmælenda höfðu skreytt sig með rauðri og svartri málningu og létu ófriðlega en lögreglan í Pittsburgh lét engan bilbug á sér finna og kom sér upp svokölluðum stálhring, eða ring of steel, umhverfis ráðstefnumiðstöðina en það táknar svæði sem enginn mótmælendi skyldi komast inn fyrir meðan moldir og menn lifa.

Amerískar óeirðasveitir kalla ekki allt ömmu sína enda komst ekki nokkur maður óboðinn inn fyrir stálhringinn og var hvorki táragas né piparúði sparað til að verja ráðstefnuhöllina. Kaupmenn höfðu varann á og víggirtu búðarglugga og verslanir af óvenjumikilli kostgæfni og þegar upp var staðið gekk þessi fyrsti dagur fundarins nokkuð vel fyrir sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×