Lífið

Bretar logandi hræddir við Ofurketti

Ofurkettirnir eru dálítið sætir. En þeir minna frekar á blettatígur en kött.
Ofurkettirnir eru dálítið sætir. En þeir minna frekar á blettatígur en kött.

Bretar eru nokkuð áhyggjufullir vegna nýrrar kattategundar sem er að festa rætur þar í landi en um er að ræða ofurkött sem er ræktaður úr kattardýri sem svipar til blettatígurs. Kattartegundin sem um ræðir heitir Savannah-kötturinn sem mætti þýða sem hitabeltiskötturinn.

Kattardýrið er blanda af heimilisketti og afrískum villiketti. Ofurkötturinn er rúmlega tvöfalt stærri en venjulegur köttur og getur að auki hlaupið áttatíu kílómetra á klukkustund.

Talið er að um 300 ofurkettir séu í Bretlandi en gagnrýnendur segja að kettirnir bjóði hættunni heim. Bæði geta þeir valdið börnum gríðarlegum skaða og svo er aldrei að vita hvert geðslag þeirra er.

Menn óttast einnig að ofurkettir blandist öðrum villiköttum í Bretlandi. Þá gæti orðið til stórhættulegt ofurkattakyn sem reikar villt um í borgum og bæjum.

Menn fóru fyrst að rækta ofurköttinn árið 1980 en hann var síðan bannaður í Bandaríkjunum og sumstaðar í Ástralíu.

Ætli maður að ala upp Hitabeltisköttinn þá þarf leyfi frá yfirvöldum. Meðal annars má ekki hleypa kettinum út án þess að hafa hann í ól eða búri. Þess má geta að Hitabeltiskötturinn kostar 6000 pund. Á núverandi gengi eru það um 1,2 milljónir króna.

Formaður ofurkattaklúbbsins, Donna Peynado, viðurkennir að dýrin séu dálítið stór og sterk og að veiðieðli dýranna sé sterkt. En eina öryggisreglan er sú að skilja ekki ofurköttinn einan eftir með barni undir fimm ára aldri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.