Innlent

Bjarni fagnar samningum um bankana

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bjarni Benediktsson segir mikilvægt að lágmarka áhættu ríkisins vegna bankanna. Mynd/ Anton.
Bjarni Benediktsson segir mikilvægt að lágmarka áhættu ríkisins vegna bankanna. Mynd/ Anton.
„Það sem við höfum lagt áherslu á varðandi endurreisn bankanna er að lágmarka áhættu ríkisins," segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um samninga sem ríkið og skilanefndir bankanna hafa kynnt vegna endurreisnar bankakerfisins.

„Þetta samkomulag sem virðist vera að takast felur í sér að áhætta ríkisins verður minni en í stefndi framan af í viðræðuferlinu. Og það er ekki hægt að gera annað en að fagna því sérstaklega," segir Bjarni. „Við höfum líka lagt áherslu á að reyna að skapa hvata fyrir erlendu kröfuhafana og þá sem fjármagnað hafa íslenska bankakerfið til þess að gera það áfram," segir Bjarni og bendir á að sú lausn sem er í sjónmáli sé til þess fallin. „Þannig að heilt yfir lítur þetta vel út og þetta er mikilvægur áfangi," segir Bjarni. Hann segist vona að þau plön sem búið er að kynna gangi eftir.

„Næsta skref í þessum málum eftir að endurreisn banaknna verður lokið er að huga að aðgerðum fyrir heimilin og atvinnustarfsemi í landinu og það er mikilvægt að skilningur verði hjá nýjum eigendum bankanna á þeim bráðarvanda sem við er að etja," segir Bjarni.

Bjarni bendir á að það hafi verið til tjóns hversu mikið endurreisn bankakerfisins hafi dregist en ítrekar mikilvægi þess að eignarhaldi bankanna verði komið í hendur erlendra aðila og áhætta ríkisins verði lágmörkuð. Slíkt sé í takti við þær áherslur sem sjálfstæðismenn hafi haft.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×