Erlent

Krefjast þess að Rússar komi lagi á gasið

Evrópusambandið krefst þess að Rússar komi gasflutningum til Evrópu í samt lag hið fyrsta. Nokkru Evrópuríki segja röskun hafa orðið á gasflutningum þangað eftir að rússneski orkurisinn Gazprom skúrfaði fyrir gas til Úkraínu. Það sé sérlega bagalegt nú þegar kalt sé í veðri í Evrópu.

Fyrir helgi var skrúfað fyrir gas til Úkraínu frá Rússlandi vegna deilna um verð á gasi og reikninga sem Rússar sögðu ógreidda. Úkraínumenn voru einnig vændir um að hafa tappað gas af leiðslu sem liggja um landið í leyfisleysi og án þess að borga. Rússneski orkurisinn Gazprom er stór á evrópska gasmarkaðnum og gasið þeirra þangað fer að miklum hluta til Evrópuríkja í gegnum leiðslur sem liggja um Úkraínu. Forvígismenn Gazprom hafa sagt að allt verði gert til að koma í veg fyrir gasskort en það virðist ekki hafa gengið eftir.

Kalt er í veðri víða í Evrópu og gas til húshitunar enn mikilvægara en ella.

Austurríkismenn segja gasstreymi frá Rússlandi þangað níutíu prósent minna en áður en skrúfað var fyrir og sjötíu og fimm prósent minna til Rúmeníu. Ráðamenn í Búlgaríu segja neyðarástand að skapast þar vegna gasdeilunnar og ástandið mun líka slæmt í Grikklandi og Makedóníu.

Evrópusambandið krefst þess nú að Rússar og Úkraínumenn leysi deilur sínar og að opnað verði aftur fyrir flæði gass til ESB ríkja. Í yfirlýsingu segir að fulltrúar sambandsins muni nú þrýsta enn frekar á deilendur um að þeir setjist aftur að samningaborðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×