Innlent

Stærsti jarðverktakinn segist sperrtur

Dofri er frá Vestmannaeyjum.
Dofri er frá Vestmannaeyjum.
Hann byrjaði 19 ára gamall á því að kaupa sér traktorsgröfu til að leggja vatnsveitu til Vestmannaeyja. Nú, meira en 40 árum síðar, á Dofri Eysteinsson stærsta jarðverktakafyrirtæki landsins og vinnur á sama stað og forðum, en nú að því að bylta samgöngum Eyjamanna með Landeyjahöfn.

Með framkvæmdunum við Landeyjahöfn og þar áður við tvær af stíflum Kárahnjúkavirkjunar hefur Suðurverk náð þeim sessi að verða stærsti jarðvinnuverktaki landsins en fyrirtæki vinnur um þessar mundir einnig að tveimur stórum verkum í vegagerð, við Hólmaháls í Eskifirði og á Vopnafjarðarleið. Suðurverk er í eigu Dofra Eysteinssonar, sem ólst upp á bökkum Markarfljóts, á sömu slóðum og tugir trukka hans aka nú um allan sólarhringinn með grjótið í Landeyjahöfn.

Dofri hóf rekstur sinn einmitt þarna árið 1966 þegar hann keypti sér traktorsgröfu til að grafa fyrir vatnslögn til Vestmannaeyja en síðar gerði hann einnig vegi og varnargarða við Markarfljót. Mörgum í verktakabransanum þótti Dofri taka áhættu þegar hann bauð lægst í Landeyjahöfn, sem bylta mun samgöngum milli lands og Eyja. Dofri segir að sér falli þetta verk vel og hann segi kunningjum sínum að hann verji sínar heimalendur.

Um 110 manns vinna hjá nú hjá Dofra í Suðurverki. Spurður hvort hann sé nokkuð á hausnum, eins og margir telji verktakabransann almennt vera, svarar Dofri að hann haldi að svo sé ekki. "Það er allt í góðum málum hjá okkur. Við erum bara sperrtir," svarar hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×