Innlent

Gætu verið útrásarvíkingar sem óttast frystingu eigna

Þórólfur Matthíasson prófessor.
Þórólfur Matthíasson prófessor. Mynd/Auðunn Níelsson

„Það eru óþolinmóðir Íslendingar og óþolinmóðir útlendingar, sem voru lokaðir inni með gjaldeyrishöftunum sem hafa farið þarna út," segir Þórólfur Matthíasson prófessor, spurður hvað hann lesi út úr upplýsingum sem fram hafa komið á Alþingi um að fjárhæðir meintra gjaldeyrissvika, sem Seðlabankinn rannsakar nemi 57,5 milljörðum króna á 10 mánaða tímabili. Hann segir að erlendu aðilarnir geti verið jöklabréfaeigendur. „En að því marki sem þetta eru óþolinmóðir Íslendingar, gætu það verið útrásarvíkingar sem óttast frystingu eigna sinna."

Skráð gengi evru var í gær um 183 krónur en þá var sölugengi á hinum óskráða aflandsmarkaði komið í 291 krónu. Þórólfur segir það háa verð til marks um að lítið framboð sé á nú krónum til að koma á viðskiptum á aflandsmarkaðnum.

Þórólfur segir að ávinningur þeirra sem standa á bak við gjaldeyrissvikin sé í mesta lagi helmingur af heildarfjárhæðinni og líklega mun minna. „Það er rétt að hafa í huga að tölurnar verða fljótt mjög stórar ef litið er á brúttóupphæð viðskiptanna, en í leiðinni er verið að selja vöru og þjónustu," segir hann. „Ávinningur­inn er í hæsta lagi helmingur og sennilega töluvert undir því."

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það hafi komið sér á óvart hve upphæð meintra gjaldeyrissvika var há. „En maður hefur heyrt að margir hafi grætt ótrúlegar fjárhæðir á þessu," segir Ásbjörn.- pg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×